|
Álfheiður Ólafsdóttir var með sýningu í Grindavík frá 29. janúar til 23. febrúar 2005. Sýningin bar heitið "Fjallið mitt"
Í ágúst 2004 fór ég ásamt dóttur minni, Maríu Rún og Dagnýu frænku austur fyrir fjall.
Það var hitabylgja á Íslandi og frábært að tjalda. Við fundum okkur tjaldstæði þar sem Þríhyrningur blasti við , virðulegur en samt svo tryggur. Við lágum í tjaldi í fjórar nætur. Stelpurnar fundu sér eitthvað til dundurs en ég málaði myndir af fjallinu Þríhyrning sem er "fjallið mitt".
Á kvöldin var upplagt að fara í skemmtilegar draugaferðir að eyðibýlum í skjóli myrkurs. Í miklum hita breiðist oft dalalæða yfir láglendið. Góður málsháttur segir "Margt býr í þokunni".
Við tjölduðum á Aurunum, þar sem Markarfljót rann yfir í"gamla daga". Stundum varð dalalæðan svo mikil það var mjög draugalegt að skríða inn í tjaldið og fara að sofa.
Myndin hér fyrir ofan er máluð fyrir hádegi einn fagran morgun. Dalalæðan var yfir allt fram til kl. 9.00 um morguninn. Ég leit oft út og lagði mig bara aftur. Ég hugsaði með mér: "Ég get ekkert málað í dag, því að ég sé ekkert til". En svo allt í einu færist þokan fjær og fjær tjaldinu og fjallið bókstaflega fæðist út úr þokunni. Ég var alveg heilluð og reyndi að fanga stemminguna.
Við skoðuðum fjallið frá mismunandi sjónarhornum. Hann breytist stöðugt eftir staðsetningu. Hér gefur að líta sýn fjallsins frá Ásnum í Stöðlakoti, fyrir suðvestan Þríhyrning.
Hérna er hitamóðan svo mikil að við sáum frekar lítið til fjalla. Þessi mynd er tekin fyrir suðastan fjallið.
Þetta sjónarhorn er fyrir austan Þríhyrning.
Ég komst að því að "Fjallið mitt" er ótrúlega flókið. Ég reyndi að fanga fjallið í þrívídd, var með myndir mér til stuðnings og lítið kort með hæðarlínum. Ég er viss um að þrívíddarmyndin er ekki rétt, en svona er mín tilfinning fyrir fjallinu.
Þessi mynd er máluð með tilfinningar og hugsun til fjallsins. Mér finnst hann eins og: "ævintýri".
"Hann er dularfullur"
Í sumar ætla ég að ganga upp á fjallið og skoða það ofan frá. Þannig að þessi sýning er einungis upphafið af rannsókn á fjallinu og margbreytileika þess. Þetta verður rannsóknarverkefni næstu árin.
Allar myndir frá sýningunni eru á heimasíðunni:
art-iceland.com/alfheidur
Höfundarréttur © 2004-2005 - Art-Iceland.com - Trúnaðaryfirlýsing - Hafðu samband |