Á mótum tveggja tíma & Hátíð í bæ.
- Tvöföld sýningaopnun í Þjóðminjasafni Íslands
laugardaginn 2. desember 2006 -
Ljósmyndasýningar Þjóðminjasafnsins eru hver annarri forvitnilegri og 2. desember verða opnaðar tvær nýjar í Myndasalnum og á Veggnum.
Á mótum tveggja tíma – ljósmyndir Guðna Þórðarsonar (Myndasalur 2. des. – 12. mars)
Á ljósmynd Guðna Þórðarsonar má sjá harmonikkuleik á Raufarhöfn. Harmónikkuleikarinn er Agnar Víðir Indriðason, nú útgerðarmaður á Raufarhöfn og áheyrandinn er Kristján Sigfússon, nú búsettur á Þórshöfn. Hundurinn er trúlega Héppi heitinn í Sandgerði. 1956. Frumprent.
Í Myndasalnum verða til sýnis þjóðlífsmyndir víða af á landinu frá miklu umbrotaskeiði í sögu þjóðarinnar. Myndirnar eru úr safni hins þjóðþekkta Guðna í Sunnu, blaðamanns, ljósmyndara og ferðamálafrömuðar og eru eins og tímasneið frá árunum 1946 til 1960. Þar má sjá fólk við hversdagslega iðju og alls konar störf úti og inni: menn á sjó, konur við fiskverkun, réttirnar, heybaggaflutningar, vinnuvélar í sveitum sem voru nýjung á þeim tíma, vegagerðarmenn og bifvélavirkjar við vinnu o.s.frv. En fleira má líka sjá svo sem fjölskylduna við tedrykkju í fínu stofunni, litla prúðbúna stráka á bryggjunni og börn og fullorðna í röð við búðarborð kaupmannsins. Í myndum Guðna Þórðarsonar mætir hið nýja hinu gamla á eftirminnilegan hátt.
Guðni var sjálfmenntaður á sviði ljósmyndunar, kynntist töfrum hennar þegar honum var gefin myndavél í fermingargjöf og tók síðan myndir um allt land í tengslum við störf sín og ferðalög. Síðar lærði hann ljósmyndablaðamennsku hjá Time-Life og ruddi brautina fyrir nýjungum á því sviði hérlendis.
Á sýningunni Á mótum tveggja tíma eru bæði frumprent eftir Guðna sjálfan og nýjar stækkanir eftir Ívar Brynjólfsson ljósmyndara en hann er sýningarhöfundur ásamt Ingu Láru Baldvinsdóttur fagstjóra myndasafns Þjóðminjasafnsins.
Á sama tíma og myndir Guðna eru sýndar í Þjóðminjasafninu gefur Vaka-Helgafell út ævisögu hans eftir Arnþór Gunnarsson. Sjá nánar á http://edda.is/Ný almenn rit.
Hátíð í bæ - ljósmyndir Ingimundar og Kristjáns Magnússona (Veggur 2. desember – 7. janúar 2007)
Jól og áramót í Laugarnesskóla 1962 - Kristján Magnússon
Á Veggnum verður opnuð jólasýning með myndum tvíburabræðranna Ingimundar og Kristjáns Magnússona. Eins og Guðni Þórðarson störfuðu þeir meðal annars sem blaðaljósmyndarar en í Þjóðminjasafninu verða nú sýndar myndir sem fanga anda jólanna á sjöunda áratugnum. Þarna má sjá jólin í skólanum, litlu jólin, jólaböll stéttarfélaga, jólastemningu heima og einnig fólk við brennusöfnun en hún var mikilvægur þáttur í jólafríum þessa tíma. Margt í myndunum ætti að koma börnum í jólaskap og fullorðna fólkið þekkir þar vafalaust hina sönnu jólastemningu bernsku sinnar.
Krakkar í Hlíðarskóla 1963 - Ingimundur Magnússon
Ingimundur og Kristján mynduðu meðal annars fyrir Vísi,Tímann og Vikuna og ráku einnig eigin ljósmyndastofu á tímabilinu 1978 til 1998. Kristján Ingimundarson varð smám saman einn helsti tískuljósmyndari landsins. Við andlát hans Ingimundarsonar árið 2003 var Þjóðminjasafni Íslands afhent myndasafn bræðranna til varðveislu.
Höfundur jólasýningarinnar Hátíðar í bæ er Ágústa Kristófersdóttir.
|