Nýtt gallerí art-Iceland.com
Opnun Menningarnótt í Reykjavík 20. ágúst 2005
Art-Iceland.com opnaði nýtt gallerí á Skólavörðustíg númer 1a á Menningarnótt í Reykjavík. Við lítum svo á að stofnun listagallerís sé eðlilegt framhald af því að vera með vefgallerí. Vefurinn hefur reynst vel sem kynning á þeim listamönnum sem þar sýna verk sín. Það er óneitanlega skemmtilegra að geta sýnt listaverkin í raun og nýta vefinn til stuðnings.
Skólavörðustígurinn er frábær staðsetning fyrir art-Iceland.com. Hingað streyma erlendir ferðamenn og Skólavörðustígurinn verður og er listagatan á Íslandi og verður kynnt sem slík.
Nýtt lógó fyrir art-Iceland.com hefur verið hannað og er það í fánalitunum. Rauði punkturinn er mjög jákvæður fyrir okkur listamennina rauður punktur er tákn þess að listaverk sé selt!
Mikil vinna var lögð í að mála og setja upp bætta lýsingu ásamt því að safna saman listaverkum og leyfa þeim að njóta sín. Með góðri hjálp gekk samt allt upp.
Í samvinnu við KB banka og Menningarmálanefnd Reykjavíkur býður galleríið upp á vaxtalaus lán til að auðvelda listunnendum kaup á verkum sem þá dreymir um að eignast.
Í tilefni af opnuninni og Menningarnótt í Reykjavík gafst listunnendum kostur á að gera tilboð í einstök verk. Tilboðin hafa verið skoðuð og samband haft vegna hæstu boða. Allur ágóði rann til Rauða Kross Íslands.
Um kvöldið kom móðir Álfheiðar, María Jónsdóttir frá Kirkjulæk og niðjar hennar og kváðu nokkrar stemmur að gömlum sið. Kveðskapurinn var fyrst fluttur kl. 20 og var þá inni í sýningarsal gallerísins en síðar aftur úti á götu á heila tímanum kl. 21 og 22.
Unnur Sigurðardóttir söng líka af krafti og með fallegri rödd nokkur lög eftir Gershwin o.fl. Unnur er dóttir Sigurðar Örlygssonar myndlistarmanns.
Meðan kveðið var og sungið inni má segja að fullt hafi verið út úr dyrum í bókstaflegri merkingu.
Þegar söngfólkið fór út safnaðist töluverður fjöldi fólks saman fyrir framan galleríið og hlustaði hugfangið á kveðskapinn og sönginn.
Jón Ólafsson, María Rún Þrándardóttir, María Jónsdóttir og Dagný Valdimarsdóttir kveða saman.
Ómar og Andri Jónssynir bætast við hópinn. Þessi hópur er á leið til Kanada til að taka þátt í hátíðarhöldum Vestur-Íslendinga.
Í "Ísland í dag" á Stöð 2 fimmtudagskvöldið 18. ágúst var sýnt frá æfingu hópsins og rætt við þau. Hægt er að skoða upptöku frá þættinum á vefnum veftivi.visir.is/veftivi. Farið er inn á "Ísland í dag II" 18. ágúst 2005 eða smella beint hér.
Það er von okkar að geta boðið listunnendum fjölbreytt úrval listaverka jafnt frá þjóðþekktum listamönnum sem og minna þekktum.
Strax í upphafi verða að minnsta kosti 15 listamenn með verk til sölu. Við munum bæta í hópinn smátt og smátt. Nokkur verk verða til sýnis frá hverjum listamanni, en til að auka þjónustu við listamenn og viðskiptavini munum við vera með tölvu í galleríinu til að geta sýnt hvað art-Iceland.com hefur fleira á boðstólum.
Bestur þakkir til allra sem litu við og gerðu daginn ógleymanlegan.
P.S.
Athugið að galleríið er ekki lengur í þessu húsnæði.