Vetrarhátið 2008
Ég var á ferðinni á vetrarhátíð og sótti heim nokkra staði sem mér fannst áhugavert að skoða. Ég missti reyndar af draugaganginum í Þjóðminjasafninu. Hreinlega vegna þess að mér fannst ekki hundi út sigandi fyrir óveði.
Þessi fallega mynd er af henni Sigrúnu Maríu Jónsdóttur. Myndin er tekin í gegn um plastflösku, glamparnir af plastinu mynda ævintýralega birtu.
María Rún og Sigrún María vinkona hennar fóru í Grafarvogskirkju á laugardeginum og hlustuðu á hann Shlomo Mintz spila á fiðlu af mikilli innlifun. Hann lék 24 Kaprísur Op. 1 eftir Niccoló Paganini.
Þessar 24 Kaprísur eru æfingarnar hans Paganini, hann var svo flinkur á fiðlu að hann þurfti að semja sínar eigin æfingar til þess að æfa sig fyrir lögin sem hann samdi. Paganini var svo óhugnanlega góður á fiðluna að það var talið að hann hafi selt djöflinum sál sína. Honum var stungið í fangelsi af þeim sökum, ekki bætti það úr að hann var ólaglegur og þess vegna trúði fólk þessum sögum.
Æfingarnar hans Paganini eru ótrúlega erfiðar og eru einungis fáir í heiminum sem geta spilað þær. Shlomo Mintz leikur æfingarnar af mikilli snilld og var þetta einstök upplifun.
Á laugardeginum leit ég við í Iðnó þar sem var stiginn dans af mikilli ástríðu. Þetta var maraþon í Tangó. Margir voru búnir að stíga dansinn í marga klukkutíma og var spenna í loftinu hver þraukaði lengst. Dansararnir buðu einnig upp á kennslu í Tangó. Mig dauðlangaði að prófa en lét það ekki eftir mér. Tók myndir og dáðist að þeim sem voru á gólfinu.